I. Kafli – Nafn, heimili og tilgangur
1. gr.
Félagið heitir: Málarameistarafélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að:
- Efla faglegt samstarf málarameistara og vinna að aukinni menntun og bættri menningu stéttarinnar.
- Gæta hagsmuna félagsmanna við kjarasamningsgerð Samtaka atvinnulífsins
- Standa vörð um hagsmuni félagsmanna og koma fram fyrir hönd þeirra gagnvart opinberum aðilum og öðrum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í öllum þeim málum sem hagsmuni þeirra varða. Í því felst m.a. að koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum og dómstólum.
II. Kafli – Aðild og úrsögn
3. gr.
Aðilar að félaginu geta orðið einstaklingar sem hafa fullgilt meistarabréf í málaraiðn og starfrækja fyrirtæki í greininni eða starfrækja sjálfstæðan atvinnurekstur á eigin kennitölu.
Einstaklingar sem hafa fullgilt meistarabréf í málaraiðn og hafa fært sönnur á því að þeir starfa ekki sem sjálfstæðir atvinnurekendur geta orðið aukaaðilar að félaginu og færast þá á aukafélagaskrá.
Óski maður inntöku í félagið, sem áður hefur sagt sig úr því vegna veikinda, breyttrar atvinnu eða einhverra annarra orsaka, sem brutu ekki í bág við lög félagsins eða samþykktir, getur hann orðið félagsmaður á ný án þess að uppfylla skilyrði 1. mgr.
4. gr.
Umsókn um inngöngu skal vera skrifleg og sendast til stjórnar. Skulu umsókninni fylgja öll nauðsynleg gögn sem sýni að umsækjandi uppfylli öll skilyrði um inngöngu.
Við umsókn í félagið skal tilgreina það fyrirtæki sem umsækjandi starfrækir í greininni nema að sótt sé um aðild á grundvelli 2. eða 3. mgr. 3. gr. laga félagsins. Starfræki umsækjandi fleiri en eitt fyrirtæki í greininni, skal tilgreina það fyrirtæki sem aðalrekstur þess í málaraiðn fer fram á.
Umsækjandi telst hafa hlotið inngöngu í félagið þegar stjórnin hefur samþykkt umsókn hans, þó með fyrirvara um samþykki stjórnar Samtaka iðnaðarins í samræmi við lög SI. Sé umsókn hafnað er umsækjanda heimilt að skjóta niðurstöðu stjórnar til félagsfundar.
Við fyrsta tækifæri skal formaður, eða einhver sem hann tiltekur, afhenda nýjum félagsmönnum, sem gengið hafa í félagið á liðnu starfsári, þar til gert skjal, undirritað af stjórninni sem viðurkenningu þess að þeir séu fullgildir meðlimir.
5. gr.
Málarameistarafélagið er aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.
Samhliða inngöngu í Málarameistarafélagið gerist nýr félagi aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd fyrirtækis síns, sem er tilgreint er samkvæmt 2. mgr. 4. gr. Þar með skuldbindur hann fyrirtækið til að lúta þeim reglum og skyldum sem fylgir aðild að þessum félögum.
6. gr.
Úrsögn skal sendast félaginu með sannanlegum hætti. Þó getur enginn sagt sig úr félaginu meðan á vinnudeilu (verkfalli) eða verkbanni (vinnusviptingu) stendur.
7. gr.
Brot gegn lögum og samþykktum félagsins eða samtaka þeirra sem Málarameistarafélagið er aðili að, varða áminningu eða brottvikningu um stundarsakir, eða að fullu og öllu, ef sakir eru miklar. Úrskurði félagsstjórnar má skjóta til félagsfundar sem er æðsta vald í slíkum málum, nema brotið varði að einhverju leyti við landslög.
Stangist háttsemi félagsmanna, og fyrirtækja þeirra, á við tilgang og stefnu Málarameistarafélagsins og ítrekaðar kvartanir berast inn á borð stjórnar vegna háttsemi þeirra þar sem ímynd félagsins bíður hnekki getur stjórnin, að undangenginni áminningu, vikið félagsmanni úr félaginu. Úrskurði félagsstjórnar um brottvikningu samkvæmt ákvæði þessu má skjóta til félagsfundar sem er æðsta vald í slíkum málum.
Úrsögn eða brottvikning leysir félagsaðila ekki undan greiðslu áfallinna félagsgjalda.
8. gr.
Sá félagsmaður sem hættur er að reka iðnina skal færast yfir á aukafélagaskrá félagsins. Hann hefur ekki kjörgengi í aðalstjórn, né varastjórn. Í allar nefndir og sjóðsstjórnir skulu þeir hafa atkvæðisrétt og kjörgengi, þó má aldrei nema einn aukameðlimur vera í þriggja manna nefnd og ekki fleiri en tveir menn í fimm manna nefnd. Ef aukameðlimur byrjar aftur að reka iðnina skal hann þá færast aftur yfir á meðlimaskrá sem fullgildur félagsmaður.
III. kafli – Almennir félagsfundir
9.gr.
Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins innan þeirra takmarka, sem lögin setja. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað án tillits til fundarsóknar “
10. gr.
Félagsfundi skal boða bréflega, með tölvupósti eða í fjölmiðlum með 3 daga fyrirvara, þegar stjórn félagsins þykir þurfa, eða þegar þess er krafist skriflega af minnst 1/5 hluta félagsmanna, enda greini fundarbeiðendur fundarefni.
Kröfu um fund skal senda formanni félagsstjórnarinnar, og ber honum að boða til fundarins innan þriggja daga, eftir að honum barst krafa þar um, með svo skömmum fyrirvara sem heimilt er samkvæmt lögum þessum. Nú hefur formaður eigi boðað til fundar innan viku, eftir að krafa um fundarhald berst honum, og geta þá félagsmenn þeir, sem kröfðust fundarhalds, sjálfir boðað til fundarins með fyrirvara samkvæmt lögum þessum.
11. gr.
Meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram, ef 1/5 fundarmanna óskar þess.
12. gr.
Í fundargerðum skulu koma fram allar samþykktir félagsfunda og stutt skýrsla um annað það sem gerist á félagsfundum. Fundargerð skal undirrituð af fundarstjóra og fundarritara og telst hún að þessum formsatriðum uppfylltum fullt sönnunargagn þess sem fram fór á fundinum.
Fundargerð skal send öllum félagsmönnum að loknum fundi.
IV. Kafli Aðalfundur
13. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda fyrir 15. maí ár hvert og skal til hans boða með bréfi, tölvupósti, auglýsingum í blöðum eða á annan sannanlegan og tryggilegan hátt með minnst viku fyrirvara.
Í fundarboði skal getið dagskrár aðalfundar og tillögur að lagabreytingum.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað án tillits til fundarsóknar nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
14. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
- Skýrsla stjórnar.
- Reikningar félagsins
- Ákvörðun árgjalds og fjárhagsáætlun
- Lagabreytingar, ef fyrir liggja
- Kosning til stjórnar
- Kosning skoðunarmanna
- Kynning á skipan nefnda félagsins
- Önnur mál
V. Kafli Stjórn, stjórnarkjör og verkefni stjórnar
15. gr.
Stjórn félagsins eru skipuð fimm mönnum: formanni og fjórum meðstjórnendum. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Meðstjórnendur eru kosnir til tveggja ára og ganga tveir þeirra út annað árið og tveir hitt.
Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund og kýs úr sínum hópi varaformann og ritara.
Varastjórn skipa þrír menn og eru kosnir til eins árs í senn. Skulu varamenn taka sæti á stjórnarfundum verði forföll. Ef stjórnarmaður forfallast varanlega eða missir kjörgengi á milli aðalfunda tekur fulltrúi í varastjórn sæti hans.
16. gr.
Stjórn og varastjórn er kosin á aðalfundi. Formaður skal kosinn í sérstakri kosningu. Stjórnarmenn má endurkjósa. Einungis fullgildir félagar Málarameistarafélagsins hafa rétt til stjórnarsetu í félaginu.
17. gr.
Stjórn fer með yfirstjórn félagsins milli félagsfunda. Til meiriháttar ákvarðanatöku, svo sem kaup, byggingu eða sölu fasteigna, skal ávallt boða til félagsfundar og skal til hans boðað á sama hátt og til aðalfundar. Ræður afl atkvæða úrslitum á slíkum fundum.
Stjórn ákveður fjölda nefnda og tilnefnir fulltrúa í nefndirnar og kynnir á aðalfundi. Félagsmönnum er heimilt að gefa kost á sér til setu í starfandi nefndum með því að senda stjórn framboð fyrir aðalfund.
Stjórn setur reglur um úthlutun styrkja til félagsmanna eða eftirlifandi aðstandenda þeirra. Reglur þessar skulu vera aðgengilegar félagsmönnum.
VI. Kafli Félagsgjöld, félagsréttindi og reikningsár
18. gr.
Félagsmenn skulu greiða félagsgjald til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert. Félagsréttindi virkjast ekki fyrr en við greiðslu félagsgjalda.
Reki tveir eða fleiri meistarar fyrirtæki saman, á sömu kennitölu, greiðir aðeins einn meistari fullt félagsgjald, aðrir greiða félagsgjald sem nemur 1/2 félagsgjaldi fullgilds félagsmanns.
Félagsgjald aukafélaga nemur þriðjungi félagsgjalds fullgilds félagsmanns. Aukafélagar hafa ekki kjörgengi í aðal- og varastjórn félagsins.
Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald sitt að fullu fyrir 31. mars næsta árs á eftir álagningu hefur hann ekki atkvæðisrétt á fundum félagsins og öðlast það ekki aftur fyrr en úr hefur verið bætt. Telji stjórn félagsins að vanskil félagsmanns séu orðin það veruleg að við það verði ekki lengur unað skal hún svipta viðkomandi öllum félagsréttindum. Slík brottvikning skal vera skrifleg og félagsmanni gerð grein fyrir hver skuld hans er.
Stjórn félagsins getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda hafi henni borist skrifleg rökstudd beiðni þar um fyrir áramót.
19. gr.
Fullgildir félagsmenn, sem náð hafa 70 ára aldri, geta sótt um að vera undanþegnir skyldu til greiðslu árgjalds enda hafi þeir hætt störfum sem iðnmeistarar. Gjaldfrjálsir félagar halda öllum félagsréttindum að undanskildum kosningarétti á aðal- og félagsfundi.
Heiðursfélagar skulu jafnframt vera undanþegnir skyldu til greiðslu félagsgjalds en þeir skulu þó halda öllum félagsréttindum.
Þeir félagar, sem vegna mikilla veikinda, tapa svo starfsorku sinni að þeir eru óvinnufærir geta óskað eftir því við stjórn að félagsgjald sé fellt niður en þeir skulu þó halda öllum félagsréttindum.
20. gr.
Gjalddagar félagsgjalda skulu vera hinir sömu og gjalddagar aðildargjalda Samtaka iðnaðarins. Dragist greiðslur félagsgjalds um meira en einn mánuð er heimilt að krefja viðkomandi um hæstu lögleyfðu dráttarvexti allt frá gjalddaga.
Fullgildir félagsmenn greiða aðildargjöld til Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins samkvæmt ákvörðun þeirra um álagningu hverju sinni. Aukafélagar, heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagar greiða ekki til Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins.“
21. gr.
Reikningsár er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu liggja frammi viku fyrir aðalfund. VIII. Kafli. Um lagabreytingar og félagsslit.
22. gr.
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi. Lagabreytinga skal getið í aðalfundarboði.
23. gr.
Tillögu um slit á félaginu eða samruna þess við önnur samtök eða félög skal fara með á sama hátt og lagabreytingar, að öðru leyti en því að 3/4 hluta atkvæða þarf til að samþykkja slit á félaginu eða samruna þeirra við önnur félög. Slíka tillögu má ekki taka til afgreiðslu nema hún hafi verið kynnt í fundarboði.
Fundur sem samþykkir slit félagsins eða samruna þess við önnur samtök á löglegan hátt skal einnig ákveða hvernig ráðstafa skal eignum þeirra og greiðslu skulda. Komi til slita skulu eignir renna til þeirra stofnunar eða félags sem að dómi félagsslitafundar er skyldust starfsemi félagsins og líklegust til að koma meisturum félagsins að mestum notum.
24. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og eru þau bindandi fyrir alla félagsmenn ásamt þeim breytingum, sem á þeim kunna að verða gerðar á löglegan hátt. Prentað í apríl 1986 með áorðnum lagabreytingum 1982, 1986, 1986, 1988, 1989, 1992, 1993, 1994, 1996, 2003, 2005, 2007, 2011, 2019 og 2023.