Skip to main content

Þarftu að mála?

Fáðu fagmann í verkið!

Það er mikilvægt fyrir húseigendur að huga að reglulegu viðhaldi fasteigna sinna til þess að rýra ekki verðgildi þeirra og koma í veg fyrir varanlegar skemmdir. Vel máluð hús eru einn mikilvægasti þátturinn í að skapa fallega heildarmynd og lífga upp á umhverfið. Með réttri áferð og litasamsetningu má ná fram bestu eiginleikum hvers rýmis og skapa það andrúmsloft sem þú kýst á hverjum stað. Fáðu fagmann í verkið sem getur leiðbeint þér við val á efni og litasamsetningu og hefur fagkunnáttu til að mæta öllum séróskum þínum. Taktu enga áhættu, fáðu málarameistara í verkið!

Hvers vegna ættir þú að skipta við málarameistara?

 • Málarameistarinn er fagmaður
 • Hann ráðleggur og veitir aðstoð við efnis- og litaval
 • Gerir ígrundaðar kostnaðaráætlanir og verðtilboð
 • Notar einungis efni og málningu sem stenst íslenska veðráttu
 • Góð sprungu- og undirvinna tryggir betri endingu
 • Vinnur fagmannlega og snyrtilega

Góð ráð áður en hafist er handa

 • Gakktu ávallt úr skugga um að sá aðili sem þú skiptir við hafi tilskilin réttindi. Á hverju ári leitar fjöldi fólks til Málarameistarafélagsins sem orðið hefur fyrir fjárhags- og eignartjóni vegna óvandaðra vinnubragða í viðhaldi fasteigna. Samkvæmt Iðnaðarlögum skulu löggiltar iðngreinar ávallt reknar undir forstöðu meistara, en alltaf er þó nokkuð um að réttindalausir verktakar bjóði þjónustu sína. Erfitt getur reynst fyrir viðskiptavininn að sækja rétt sinn ef vandkvæði koma upp við verkið þegar réttindalausir menn eru annars vegar.
 • Fáðu alltaf skriflegt tilboð í verkið áður en hafist er handa. Í tilboðinu ætti að koma fram hvaða verkþættir eru innifaldir í samningsverðinu, hvernig greiðslum skuli háttað og hvort efniskostnaður sé innifalinn. Í tilboðinu ætti að vera innifalinn kostnaður vegna vinnu, véla, áhalda, vinnuaðstöðu, trygginga, flutninga, o.s.frv. auk allra samningsbundinna gjalda sem fylgja því að hafa menn og tæki í vinnu og selja efni og vinnu, þ.m.t virðisaukaskattur.
 • Það er góð regla að gera verksamning á milli verktaka og verkkaupa þar sem fram koma helslu atriði varðandi verkið. Verksamningurinn getur komið að góðum notum ef upp koma deilur milli aðila varðandi vinnu við verkið. Í verksamningi er æskilegt að auk verðsins komi fram ítarleg verklýsing þar sem tilgreindir eru allir þeir þættir sem tilheyra skuli verkinu. Auk þess er æskilegt að í verksamningi komi fram atriði eins og tímasetning verksins, á hvaða tímabili það skuli unnið og hvenær því skuli endanlega lokið. Hvernig haga skuli málum ef upp koma ófyrirséð aukaverk eftir að verktaki hefur hafist handa og hvernig greiðslum fyrir þau skuli háttað og annað sem skipta kann máli við framkvæd verksins. Hér má nálgast sýnishorn af verksamningi.
 • Mundu að þegar þú þú færð iðnaðarmann til að vinna við íbúðarhúsnæði þitt áttu rétt á endurgreiðslu á 35% af virðisaukaskattinum af vinnunni. Umsóknir um endurgreiðslu má nálgast hér , á vef Ríkisskattstjóra. Nota skal eyðublað RSK10.18 vegna endurbóta eða viðhalds á íbúðarhúsnæði til eigin nota og eyðublað RSK 10.19 vegna vinnu í við nýbyggingu á íbúðarhúsnæði til eignin nota. Umsóknir ásamt frumriti af reikningi skulu sendar til skattstjóra í viðkomandi umdæmi.
 • Skipulegðu viðhald á fasteigninni þinni með góðum fyrirvara. Það getur borgað sig að gefa sér góðan tíma til að leita tilboða í verkið. Gott er að nota vetrarmánuðina til þess að skipuleggja þau verk sem þarf að vinna utandyra yfir sumartímann því oft gertur reynst erfitt að fá málarameistara með stuttum fyrirvara á sumrin.

Er málarinn þinn meistari?

Til þess að ganga úr skugga um að verktakinn þinn sé meistari í Málarameistarafélaginu skaltu spyrja hann um félagsskírteinið. Einnig má sjá lista yfir alla félagsmenn Málarameistarafélagsins og fá upplýsingar um símanúmer þeirra, netföng og heimasíður hér.
Viljir þú óska eftir tilboði frá félagsmönnum Málarameistarafélagsins getur þú sent tölvupóst til félagsins með upplýsingum um verkið, nafn og símanúmer og auglýsingin þín verður sett á auglýsingatorg fyrir félagsmenn okkar og þeir munu hafa samband við þig.